Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, bað eiginkonu sina, Veronicu Lario, auðmjúklega fyrirgefningar á að hafa sýnt henni lítilsvirðingu. Í morgun birtist í málgagni pólitískra andstæðinga Berlusconis opið bréf frá Veronicu þar sem hún sagði að hegðun hans hefði „vegið að sæmd minni“.
„Kæra Veronica. Ég biðst hér með afsökunar. Ég bið þig að fyrirgefa mér. Að ég skuli opinberlega ... láta deigan síga gagnvart reiði þinni máttu hafa til marks - eitt af mörgum - um ást mína,“ sagði Berlusconi í bréfi sem flokkur hans, Forza Italia, birti í dag.
Ítalskir fjölmiðlar greindu frá því í síðustu viku að Berlusconi hefði sagt við konu í veislu eftir sjónvarpsþátt: „Ef ég væri ekki þegar kvæntur myndi ég kvænast þér tafarlaust.“ Við aðra konu mun hann hafa sagt: „Með þér væri ég reiðubúinn að fara hvert sem er.“
Þá var Veronicu nóg boðið.