Hátt í 400 manns voru samankomnir á NASA við Austurvöll í gærkvöldi til þess að samfagna Árna Matthíassyni, tónlistarblaðamanni á Morgunblaðinu, sem er fimmtugur í dag. Árni fékk sautján íslenskar hljómsveitir til að koma fram og í flestum tilfellum leiddu tvær hljómsveitir hesta sína saman á sviðinu. Á meðal þeirra sem komu fram voru Mínus, Risaeðlan, HAM, Rass, Benni Hemm Hemm, Forgotten Lores og Ghostigital.
Árni hóf störf á Morgunblaðinu 24. apríl árið 1984 og hefur síðan þá fengist við hin ýmsu störf hjá fyrirtækinu. Hann hefur skrifað hátt í átta þúsund greinar í blaðið, flestar þeirra um tónlist. Þá hefur hann setið í dómnefnd Músíktilrauna frá árinu 1987. Árni er líklega sá maður sem fylgst hefur best með dægurtónlist á Íslandi undanfarin 20 ár, og þá með sérstöku tilliti til grasrótarinnar.