Bresk bókabúðakeðja ætlar að bjóða ungum lesendum upp á áfallahjálp ef Harry Potter skyldi deyja í síðustu bókinni.
Höfundur bókanna um Harry Potter, J.K. Rowling, hefur sagt frá því að í sjöundu og síðustu bókinni muni einhverjar af aðalsöguhetjunum deyja, jafnvel Harry sjálfur.
The Daily Telegraph greindi frá því í síðustu viku, þegar komið var í ljós að síðasta bókin um Harry og félaga er væntanleg í verslanir 21. júlí, að bókabúðakeðjan Waterstone's í Bretlandi teldi koma til greina að opna hjálparlínu til að geta veitt ungum lesendum áfallahjálp ef uppáhalds persónan þeirra í bókunum deyr í þeirri síðustu.
Talsmaður Waterstone's sagði að þetta gæti orðið eitthvað svipað og þegar popphljómsveitin Take That hætti, þá hafi mörgum táningum verið mjög illa brugðið.