Jo O'Meara, einn af þátttakendunum í breska raunveruleikasjónvarpsþættinum Stóra bróður (Big Brother), hefur beðist vægðar í kjölfar mikillar gagnrýni á þátttakendur vegna framkomu þeirra við indversku leikkonuna Shilpa Shetty. Þetta kemur fram á fréttavef Ananova.
O’Meara, sem er fyrrum söngkona í sveitinni S Club 7, sendi frá sér yfirlýsingu á föstudag þar sem hún biður Shilpa Shetty afsökunar og segist vera niðurbrotin vegna málsins. „Mér leið eins og tilraunakanínu í sterku ljós, án nokkurs staðar til að fela mig á eða nokkurs til að tala við. Ég er algerlega niðurbrotin og eftir að hafa fengið líflátshótanir er ég hrædd við að fara heim,” segir hún. „Er ég fyrsta manneskja í heiminum sem geri mistök eða segi eitthvað sem ég sé svo eftir. Ég er eyðilög, mjög leið og hef satt að segja ekki hugmynd um það hvað ég á að gera í málinu.”
Þá er Jade Goody, annar þátttakandi í þættinum, sögð hafa verið rekin úr þunglyndismeðferð sem hún hóf fyrir skömmu, þar sem hún hafi reynst of reið til að taka þátt í skapstýringarnámskeiði. „Frá fyrsta degi var hún fjandasamleg og athyglissjúk. Hún bölvaði og formælti hlutunum endalaust. Hún gat bara ekki hætt að blóta,” segir ónefndur heimildarmaður breska blaðsins Daily Star.