Leikarinn Orlando Bloom var ávíttur í tvígang af flugfreyjum British Airways fyrir að tala í farsíma í flugvél, á leið sinni til Buenos Aires í Argentínu. Farþegi í vélinni segir Bloom hafa þvælst um flugvélina talandi í símann þannig að allir heyrðu. Bloom ræddi þar við einhvern um að fá leynisímanúmer.
Heimildarmaður dagblaðsins Daily Telegraph segir þetta hafa verið einkennilegt, Bloom hafi verið að óska eftir betra næði með því að hafa leyninúmer en þó leyft öllum að hlusta á samtalið. Bloom mun hafa blaðrað í símann fyrir flugtak og þegar vélin millilenti í Sao Paolo. Frá Buenos Aires hélt Bloom til Suðurskautslandsins.