Hrollvekjan The Messengers skaust á toppinn yfir mest sóttu kvikmyndir vestanhafs nú um helgina. Myndin fjallar um fjölskyldu sem flyst inn í gamalt hús uppi í sveit. Börnin taka fljótlega eftir því að ekki er allt með felldu í húsinu, en það tekur fullorðna fólkið töluvert lengri tíma að átta sig á því.
Með aðalhlutverkin fara Dylan McDermott, Penelope Ann Miller, John Corbett og Kristen Stewart. Tekjur af The Messengers námu 14,5 milljónum Bandaríkjadala um helgina, eða um milljarði íslenskra króna.
Í öðru sætinu er mynd af öðrum toga, rómantíska gamanmyndin Because I Said So. Myndin fjallar um mæðgur og skrautleg ástamál þeirra. Með aðalhlutverkin fara Diane Keaton og Mandy Moore.
Gamanmyndin Epic Movie, sem var á toppnum um síðustu helgi, féll niður í þriðja sætið.
Annars var frekar rólegt í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum um helgina eins og venjulega þegar Ofurskálarleikurinn fer fram, úrslitaleikurinn í bandaríska fótboltanum sem stór hluti þjóðarinnar horfir á.