Réttarlæknar á Flórída segja, að krufning á líki Önnu Nicole Smith, sem lést þar í gærkvöldi, hafi ekki leitt í ljós dánarorsök. Fram kom á blaðamannafundi í kvöld, að það muni taka 3-5 vikur að rannsaka málið. Engir áverkar fundust á líkinu og ekki fundust töflur í maganum.
Ekkert benti heldur til þss að hún hefði kafnað. Þá fundust engin ólögleg lyf í hótelherberginu þar sem Smith lést, aðeins lyfseðilsskyld lyf.
Joshua Perper, réttarlæknir, sagðist alls ekki útiloka að lyfjaneysla hefði átt einhvern þátt í láti Smith en ekkert væri hægt að fullyrða um það nú. Hins vegar væri heldur ekki hægt að útiloka að um eðlilegan dauðdaga hefði verið að ræða.
DNA sýni voru tekin úr líkinu í tengslum við deilur um það hver er faðir stúlkubarns, sem Smith eignaðist fyrir tæpum fimm mánuðum.
Á fundinum kom fram, að Smith hafi verið lasin nokkra daga áður en hún lést en talið hefði verið að hún væri með magakveisu.