Breski leikarinn Ian Richardson er látinn, sjötíu og tveggja ára gamall. Hann var þekktastur fyrir hlutverk sitt sem hinn undirförli stjórnmálamaður Francis Urquhart í sjónvarpsþáttaröðinni House of Cards. Að svo stöddu hefur ekki verið gefið upp hvað varð honum að aldurtila.
Samkvæmt fréttavef Sky lést hann á heimili sínu snemma í morgun. Hann hafði ekki kennt sér meins og áttu tökur á nýrri röð glæpaþátta með honum að hefjast í næstu viku.
Richardson var einnig þekktur fyrir hlutverk sitt í njósnaþáttunum Tinker, Tailor, Soldier, Spy eftir sögu Johns le Carré. Í þeim þáttum lék hann Bill Haydon, hátt settan breskan njósnara sem grunaður er um að vera í raun starfsmaður KGB.