Ljósmynd af ungum Líbönum í bíltúr um sundurtætt hverfi í Beirút eftir loftárás Ísraela fékk verðlaun World Press Photo í ár fyrir bestu ljósmynd ársins í fyrra. Myndina tók Spencer Platt. Miklar andstæður eru í myndinni, ungt fólk á glansandi blæjubíl með rústir í bakgrunni. Ung kona í bílnum grettir sig og sendir sms-skilaboð en önnur heldur fyrir nefið.
Platt tók myndina fyrir Getty ljósmyndavefinn þann 15. ágúst í fyrra. Myndin hlaut einnig aðalverðlaunin í flokknum „Daglegt líf“. Akintunde Akinleye hlaut verðlaun í flokki fréttamynda fyrir mynd af manni að hreinsa sót úr andliti sér í Lagos eftir að gríðarleg sprenging varð þar í olíuleiðslu 26. desember.
Af öðrum verðlaunum má nefna að ljósmyndin af fótboltakappanum franska Zinedine Zidane að skalla Ítalann Marco Materazzi í bringuna var valin íþróttaljósmynd ársins.
4.460 atvinnuljósmyndarar frá 124 löndum sendu inn myndir í samkeppnina, 78.083 myndir, og hlutu 23 verðlaun í 10 flokkum. Platt fær 10.000 evrur í verðlaun.