Donna Hogan, yngri systir fyrirsætunnar Anne Nicole Smith, segir í viðtali við CNN sjónvarpsstöðina, að hana gruni að dauði systur sinnar tengist lyfjaneyslu en Smith lést á hóteli á Flórída í gærkvöldi. Gert er ráð fyrir að réttarkrufning fari fram í dag en óvíst er hvenær niðurstöður liggja fyrir. Lögregla segist ekki rannsaka málið sem manndráp eða sjálfsmorð.
„Ég hef enn varla gert mér grein fyrir því hvað hefur gerst," sagði Hogan. „En þetta kemur kannski ekki á óvart í ljósi þess hvernig hún lifði." Þegar Hogan var spurð hvort hún teldi að dauði systur hennar tenfdist lyfjaneyslu svaraði hún: „Ég myndi geta mér þess til."
Smith fannst meðvitundarlaus í hótelherbergi í Hollywood á Flórída í gær og lífgunartilraunir báru ekki árangur. Smith, sem var 39 ára, var fyrrum nektardansmær og sat fyrir hjá Playboy. Hún giftist tæplega níræðum milljarðamæringi árið 2004 og eftir dauða hans átti hún í hörðum erfðadeilum við fjölskyldu mannsins.
Smith, sem hét réttu nafni Vicki Lynn Hogan, fæddist í fátækri fjölskyldu í smábæ í Texas. Að sögn þeirra sem þekktu hana langaði Smith alla tíð að líkjast kvikmyndastjörnunni Marilyn Monroe. „Nú hefur dauða hennar borið að með svipuðum hætti," segir Lenard Leeds, fyrrum lögmaður Smith.
Smith eignaðist dóttur á Bahamaeyjum fyrir fjórum mánuðum. Einkasonur hennar, Daniel, sem var tvítugur að aldri, lést í sjúkrastofu móður sinnar fjórum dögum eftir að systir hans fæddist. Réttarkrufning leiddi í ljós að Daniel hafði neytt nokkurra tegunda af lyfjum.
Tveir menn, Larry Birkhead, fyrrum unnusti Smith, og Howard Stern, lögmaður og vinur Smith, fullyrtu báðir að þeir ættu barnið með Smith. Litla stúlkan, Dannie Lynn Hope, erfir nú erfðakröfur móður sinnar á hendur dánarbús fyrrum eiginmanns hennar.
Smith giftist fyrst þegar hún var 17 ára gömul en skildi við eiginmann sinn skömmu eftir að Daniel sonur þeirra fæddist. Hún starfaði síðan við afgreiðslu hjá Wal-Mart og sem þjónustustúlka en gerðist síðan nektardansmær í Houston. Hún sat einnig fyrir hjá tímaritinu Playboy árið 1993. Skömmu síðar hitti hún olíukónginn J. Howard Marshall og árið 1994 giftu þau sig. Smith var þá 26 ára og Marshall 89 ára. Hann lést árið eftir.
Á næstu 12 árum átti Smith í hörðum deilum við E. Pierce Marshall, stjúpson sinn, um arf eftir Marshall. Þær deilur eru óleystar enn þótt margir dómstólar hafi tekið þær fyrir, þar á meðal hæstiréttur Bandaríkjanna. Pierce lést á síðasta ári.
Smith kom fram í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hún lék m.a. í kvikmyndinni Illegal Aliens, sem til stendur að frumsýna á næstu vikum. Á árunum 2002-2004 stýrði hún m.a. raunveruleikasjónvarpsþætti þar sem fylgst var með henni við störf og leik. Fullyrt var í fjölmiðlum, að hætt hefði verið að sýna þættina vegna þess að Smith þyngdist ótæpilega.
Smith starfaði einnig sem talsmaður megrunarfyrirtækisins TrimSpa. Í vikunni var höfðað mál gegn TrimSpa og Smith þar sem fullyrt var að markaðsherferð fyrirtækisins hefði verið villandi.