Heilsíðugrein um söngkonuna Hafdísi Huld birtist í skoska blaðinu Sunday Times Scotland þann 4. febrúar sl. Í greininni segir blaðakonan Karin Goodwin m.a. að Hafdís sé sönnun þess að „íslenskt vatn elur af sér álfapoppstjörnur" sem séu í senn frumlegar í tónlistarsköpun sinni og "yndislega klikkaðar".
Stikklað er á stóru í ferli Hafdísar, allt frá því að hún hóf feril sinn með GusGus, þá aðeins 15 ára gömul. Er haft eftir söngkonunni að þegar hún líti til baka geti hún ekki neitað því að hún hafi verið talsvert ung þegar hún byrjaði að ferðast með GusGus um heiminn. Það hafi engu að síður verið henni eðlilegt enda hafi hún stefnt á sviðsljósið svo lengi sem hún muni eftir sér, t.d. fullyrt við móður sína, þá aðeins fimm ára að aldri, að hún hygðist verða söng- og leikkona í framtíðinni.
Að lokum eru framtíðaráætlanir Hafdísar reifaðar. Jafnframt því að hlakka til fyrirhugaðrar ferðar til Glasgow segist Hafdís bíða eftir útkomu nýrrar plötu Tricky þar sem söngur hennar komi við sögu auk þess sem hún vonast til að ferðast brátt til Japan.