Stjórn Leikfélags Akureyrar hefur endurnýjað ráðningarsamning félagsins við Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóra sem stýrt hefur leikhúsinu síðustu þrjú árin. Nýi samningurinn gildir frá 1. apríl 2007 til jafnlengdar 2010.
Í tilkynningu frá LA er haft eftir stjórnarformanni LA að það sé stjórn félagsins mikils virði að gera þennan samning við Magnús Geir, segir Sigmundur Ernir Rúnarsson stjórnarformaður LA.
Á síðasta leikári voru gestir leikhússins yfir 45 þúsund sem er mesta aðsókn á einu ári í sögu félagsins. Sýningar þessa leikárs hafa einnig notið mikilla vinsælda og er þegar orðið ljóst að það verður meðal þeirra allra bestu í sögu leikhússins, samkvæmt fréttatilkynningu.