Eins og sagt var frá í Morgunblaðinu á sunnudag skrifaði Silvía Nótt (þá væntanlega Ágústa Eva Erlendsdóttir og fyrirtæki hennar Meistari alheimsins ehf.) undir 30 milljóna króna samning við útgáfufyrirtækið Reykjavík Records.
Samningurinn er eftir því sem Morgunblaðið kemst næst, sá stærsti sem íslenskur tónlistarmaður gerir við íslenskt plötufyrirtæki en að sögn Jakobs Frímanns Magnússonar hjá Reykjavík Records hljóðar samningurinn upp á þrjár plötur.
Eins og Silvíu er von og vísa var heljarinnar umstang í kringum undirritun samningsins sem fram fór í hvalaskoðunarbátnum Eldingu við Reykjavíkurhöfn og ljóst að nú fer í hönd umfangsmikil markaðsherferð utan um væntanlega plötu og sjónvarpsþátt sem senn fer í loftið á Skjá einum.
Silvía Nótt í heimsókn
Einn liður í þessari markaðsherferð hefur komið reyndustu markaðfræðingum í opna skjöldu en það uppátæki gengur út á að Silvía Nótt banki upp á hjá þekktu fólki og/eða bloggurum til að kvarta undan færslum þeirra á síðum sínum. Á meðal þeirra sem Silvía Nótt heimsótti á sunnudagskvöld voru Sigmar Guðmundsson Kastljósmaður og Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi og formaður borgarráðs, en báðir blogga þeir um þetta á síðum sínum. Sigmar segir frá því að upp úr kvöldmat á laugardag hafi Silvía Nótt bankað upp á hjá honum og minnst á einhverja útilegu um næstu helgi en síðan boðist til að lesa kvöldsögu fyrir dóttur Sigmars. Kveðst Sigmar ekki hafa þorað að bjóða popp-prinsessunni og tveimur fílefldum lífvörðum hennar inn og geisladiskurinn sem hún hafi gefið honum að skilnaði hafi reynst ónýtur.
Ekki öllum skemmt
Björn Ingi Hrafnsson og flokksfélagi hans í Reykjavík suður, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson gagnrýna hvor um sig blaðamannafund Silvíu Nóttar á laugardag. Segja ummæli Silvíu hafa verið fyrir neðan allar hellur og Sveinn hvetur Ágústu Evu að hætta þessum látalátum og halda sig við alvöru tónlistarflutning.
Eins og gefur að skilja rita þeir stuttu síðar á bloggsíður sínar frá heimsókna Silvíu þar sem hún í krafti lífvarða sinna, hvetur þá til að skrifa vel um sig og láta af gagnrýninni. Björn Ingi virðist þó gera sér betur grein fyrir markaðsgildi heimsóknarinnar en Sveinn Hjörtur sem er ekki jafn skemmt.