Hljóðupptökur af símtali lögreglukonu sem kölluð var til vegna andláts Önnu Nicole Smith við neyðarlínu hafa nú verið gerðar opinberar, í kjölfar mikilla vangaveltna um lát fyrirsætunnar en getum hefur m.a. verið leitt að því að Smith hafi látið lífið í kjölfar tveggja brjóstaaðgerða.
Á upptökunum heyrist lögreglukonan segja: „Hún andar ekki og hún sýnir engin viðbrögð. Hún er. Hún er, um, reyndar Anna Nicole Smith." Sjúkraliðar eru sagðir hafa komið á staðinn sx mínútum síðar en Anna Nicole var úrskurðuð látin við komuna á sjúkrahús um klukkustund síðar.
Smith er sögð hafa látið stækka brjóst sín og seinna lagfæra þau eftir að hún eignaðist dóttur sína, Dannielynn, fyrir fimm mánuðum. Hún tók nokkrar tegundir verkjalyfja eftir seinni aðgerðina og lést svo í síðustu viku á hóteli í Flórída. Smith fékk lungnabólgu eftir að sonur hennar Daniel lést í september síðastliðnum og þurfti að leggja hana inn á sjúkrahús.
Skömmu fyrir andlátið sagðist hún enn hafa hita og þjást af höfuðverkjum, ógleði og ýmsu sem benti til þess að hún væri með flensu. Verkjalyf fundust þó ekki í miklu magni í maga Smith eða blóði. Sky segir frá þessu.