Japanska ríkisstjórnin hefur krafið ástralska rithöfundinn Ben Hills um afsökunarbeiðni vegna bókarinnar Princess Masako - Prisoner of the Chrysanthemum Throne” (Masako prinsessa: fangi tryggðablómaveldisins) sem japönsk yfirvöld segja örgustu móðgun við japönsku keisarafjölskylduna auk þess sem hún sé uppfull af rangfærslum. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
„Ég lít á þetta sem tilraun japanskra yfirvalda til að bæla mig og ritskoða bók mína og mér finnst það algerlega óviðunandi,” hefur japanska fréttastofan Kyodo eftir Hill. „Það er ekkert sem þarf að biðjast afsökunar á. Það er í raun bara ein manneskja í þessari sögu sem á inni afsökunarbeini og það er Masako prinsessa. Ég held að Kunaicho (japanska hirðin) ætti að biðja hana afsökunar á því að hafa hrakið hana fram á barm taugaáfalls.”
Hills segir sögu Masako vera austurlenska útgáfu af sögu Díönu prinsessu en samkvæmt upplýsingum Kyodo þykir japönskum yfirvöldum sérlega móðgandi að því skuli haldið fram í bókinni að Aiko, dóttir prinsessunnar, sé getin með tæknifrjóvgun.
Masako, sem er 43 ára og menntuð í Harvard, starfaði innan japönsku utanríkisþjónustunnar áður en hún giftist Naruhito krónprins landsins árið 1993. Hún er sögð hafa haft miklar efasemdir um hjónabandið og hefur ekki sinnt neinum opinberum skyldum undanfarin þrjú ár vegna þunglyndis sem rakið er til þess álags sem fylgdi því fyrir hana að aðlagast lifnaðarháttum konungsfjölskyldunnar.
Stefnt er að útgáfu bókarinnar á japönsku í maí, þrátt fyrir mótmæli japanskra yfirvalda.