Beiðni Britney Spears um Heatherette handtösku eftir hönnuðinn og fyrirsætuna Lydiu Hearst var hafnað vegna „óvirðulegrar ímyndar“ Britneyjar.
Framleiddur var takmarkaður fjöldi af þessum handtöskum. Hearst hafnaði beiðni Britneyjar vegna þess að Hearst finnst Britney ekki vera heppileg fyrirmynd.
Dagblaðið New York Daily News hefur eftir heimildamanni: „Britney bað um að fá að fara baksviðs á Heatherette-sýningunni á tískuvikunni í New York og fá þar tösku gegn því loforði að halda á töskunni er hún gengi til sætis síns á fremsta bekk þar sem myndir yrðu teknar af henni með töskuna. En það voru aðeins 100 töskur til og beiðni hennar var kurteislega hafnað.“
Hearst sagði: „Ég gef töskuna aðeins konum sem hafa náð árangri og hafa jákvæð áhrif á heiminn. Þetta eru konur sem ég lít upp til og ber virðingu fyrir, eins og Gwyneth Paltrow, Sarah Jessica Parker og Anne Hathaway. Þær eiga það sameiginlegt að koma vel fram og láta gott af sér leiða.“
Undanfarið hafa birst myndir af Britney lufsulegri og þrútinni úti að skemmta sér. Eftir að beiðni hennar um töskuna var hafnað lét hún ekki sjá sig í lok tískusýningarinnar.
En talsmaður Britneyjar segir að þessar fregnir séu allar úr lausu lofti gripnar.