Sérfræðingar sem hafa kynnt sér bréf sem Otto Frank, faðir gyðingastúlkunnar Önnu Frank, sendi til að reyna að koma fjölskyldu sinni frá Hollandi á árinu 1941 segja að bréfin sýni að hann hafi lagt sig allan fram um að koma fjölskyldunni frá Evrópu en allt of seint. Þá segja þeir að fjölskyldunni hafi verið neitað um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna og að vegabréfsáritun sem hún hafi fengið til Kúbu hafi verið dregin til baka tíu dögum eftir að hún var gefin út þar sem Þjóðverjar hafi þá lýst yfir stríði á hendur Bandaríkjunum. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
„Það lítur út fyrir að framan af hafi hann kosið að lifa við þau óþægindi sem fylgdu annars þægilegu lífi í upphafi hernáms Nasista í Hollandi fremur en óvissuna sem fylgdi því að vera tvöfaldur flóttamaður í enn einu landinu,” segir David Engel, prófessor í helfararfræðum við New York University.
300.000 manns voru á biðlista eftir vegabréfsáritun til bandaríkjanna á þeim tíma sem sótt var um áritun fyrir Frank fjölskylduna og þar sem fjölskyldan var af þýsku bergi brotin og átti ættingja í Þýskalandi voru möguleikar hennar á að fá vegabréfsáritun þegar hér var komið sögu engir. „Það sem gerði mál Franks frábrugðið öðrum málum var að hann reyndi mikið en mjög seint og að hann átti góða og vel stæða vini í Bandaríkjunum. Það reyndist þó ekki nægja til,” segir Richard Breitman, prófessor við American University.
„Ég myndi ekki biðja neyddu aðstæður hér mig ekki til að gera allt sem í mínu valdi stendur til að reynda að forðast það sem er enn verra,” sagði Ottó í bréfi til vinar síns Nathan Straus í apríl árið 1941. „Það eru fyrst og fremst börnin sem við verðum að hugsa um. Örlög okkar skipta minna máli.” Þá segir hann í öðru bréfi til Strauss. „Ég veit að það mun reynast ómögulegt fyrir okkur öll að fara héðan jafnvel þótt við fáum þá peninga sem til þarf en Edith hvetur mig til að fara einn míns liðs eða með börnin með mér.”
Fjölskyldan fór í felur á háalofti yfir skrifstofu Ottós í júlí árið 1942. Nasistar fundu hins vegar felustaðinn rúmum tveimur árum seinna og fluttu þá alla íbúa hans í útrýmingarbúðir þar sem dætur Ottós og eiginkona létu lífið skömmu fyrir stríðslok árið 1945. Sjálfur komst hann lífs af og birti að stríðinu loknu Dagbók Önnu Frank sem er einn þekktasti vitnisburður um hörmungar helfararinnar gegn gyðingum og hefur selst í um 75 milljónum eintaka