Felicia Culotta, fyrrum aðstoðarkona söngkonunnar Britney Spears, hefur opinberað gremju sína og áhyggjur af hegðun og framkomu söngkonunnar að undanförnu.
Culotta vann fyrir Spears í níu og hálft ár og var aðstoðar- og fylgdarkona hennar og náinn vinur. Hún hefur nú hætt störfum hjá henni og segir í bréfi sem birt er á netsíðunni Thatotherblog.com að það hafi verið sparkað svo oft í hana að hún hafi hreinlega gefist upp. Þá segir hún nánustu ættingja og vini söngkonunnar hafa gert allt sem í þeirra valdi standi til að fá hana til að fara í áfengismeðferð.
„Ég elskaði að vera með Britney undanfarin níu og hálft ár. Ég naut þess að taka þátt í draumi hennar. Ég met öll þau stórkostlegu tækifæri sem ég fékk vegna starfs míns hjá henni og ég er vonsvikin/sorgmædd/ örvingluð yfir því hvernig líf hennar hefur þróast,” segir hún í bréfinu. „Ég vil að þið vitið að við( þ.e. fjölskylda hennar og nánustu vinir sem ekki eru lengur á launaskrá hjá henni) gerum allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa Britney. Við erum líka að gera allt sem í okkar valdi stendur til að mýkja ekki lendingu hennar, þannig að þegar hún nær botninum, geti hún staðið upp og gengið í burtu fá öllu þessu klúðri, sem ný, sjálfsörugg, breytt og metnaðargjörn Britney eins og hún var þegar við þekktum hana og elskuðum."
Þá segist hún hafa gefist upp á að reyna að tala við Britney þar sem hún vilji ekki vera meðvirk með henni og hún geti aldrei elskað hana nóg fyrir þær báðar eða sannfært hana um að elska sjálfa sig.