Bandarískt slúðurtímarit hefur verið dæmt til að greiða leikkonunni Cameron Diaz „umtalsverðar“ skaðabætur vegna ærumeiðinga, en tímaritið hélt því fram að hún ætti í framhjáhaldi með giftum manni.
Diaz, sem er 34 ára gömul, höfðaði mál gegn útgáfufyrirtækinu American Media Incorporated vegna ljósmynda og fréttar sem birtist á vefsíðu slúðurtímaritsins National Enquirer í maí 2005.
Þar var haldið fram að umræddar myndir hafi sýnt fram á að Diaz hafi verið að halda framhjá þáverandi kærasta sínum, popparanum Justin Timberlake, með sjónvarpsframleiðanda.
National Enquirer hefur beðið Diaz afsökunar á þessari frétt og jafnframt viðurkennt að hún hafi verið uppspuni.