Shane Gibson, ráðherra innflytjendamála á Bahamaeyjum sagði af sér í gærkvöldi vegna hneykslismál, sem tengist Önnu Nicole Smith heitinni. Eftir lát Smith nýlega birtu blöð á Bahamaeyjum myndir af henni og ráðherranum í faðmlögum og bentu á, að Smith hefði fengið flýtimeðferð þegar hún sótti um landvistarleyfi á eyjunum.
Gibson vísaði því á bug, í afsagnartilkynningu sinni, að hann hefði misnotað aðstöðu sína til að útvega Smith landvistarleyfi en baðst samt afsökunar á því ef hann hefði aðhafst eitthvað sem valdið hefði sárindum.