Töluvert virðist um það að fólk reyni að hagnast á nýlegri klippingu bandarísku söngkonunnar Britney Spears að féþúfu en mikið hefur verið um að hár, sem sagt er af höfði söngkonunnar, hafi verið boðið upp á uppboðsvefnum eBay. Koma tilboðin m.a. frá Bretlandi og Þýskalandi. Eigendur hágreiðslustofunnar, þar sem raksturinn fór fram, hafa nú opnað sinn eigin uppboðsvef þar sem hár söngkonunnar, rakvélin sem hún notaði, kveikjari og bjórdós sem hún skildi eftir eru boðin til sölu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Talskona eBay hefur varað við fölsunum á vefnum og bent fólki á að kynna sér vel uppruna vörunnar áður en það semur um kaup á henni. Þá segir hún fjölda tilboða, sem tengjast hári Spears, hafa verið fjarlægð af vefnum. Á meðal þeirra tilboða sem fjarlægð hafa verið er tilboð Tognozzi hjónanna, eigenda umræddrar hárgreiðslustofu, og hafa þau því opnað sinn eigin uppboðsvef vegna málsins.
JT Tognozzi, annar eigendanna, segir að ómögulegt að nokkur annar hjónin hafi hár af höfði söngkonunnar undir höndum. „Það er klikkað hvað það er mikið um falsanir. Þetta fólk er ekki einu sinni í sama ríki og við," segir hann.
Spears rakaði sem kunnugt er af sér allt hárið í Kaliforníu í Bandaríkjunum á föstudagskvöld og sama kvöld lýsti Esther Tognozzi því yfir að hár hennar hefði að mestu verið samansett úr hárlengingum.