Frásagnir herma að poppprinsessan Britney Spears hafi skráð sig út af meðferðarstofnun í Malibu tæpum sólarhring eftir að hún skráði sig inn á hana. Fram kemur á fréttavefnum TMZ.com, sem segir fréttir af fræga fólkinu, að Britney hafi skráð sig út snemma í morgun. En þetta er haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum, segir fréttastofa Reuters.
Larry Rudolph, umboðsmaður Britneyjar, staðfesti þær fréttir í gær að hún hefði sjálfviljug skráð sig inn á meðferðarstofnun og hann óskaði eftir því að hún fengi frið.
Það vakti mikla athygli í fjölmiðlum um allan heim þegar Britney ákvað að krúnuraka sig um sl. helgi á hárgreiðslustofu í Los Angeles. Undanfarnar vikur í lífi poppstjörnunnar hafa verið stormasamar en mikið hefur verið fjallað um tíðar ferðir Britneyjar á klúbba í Hollywood, Las Vegas og New York, þar sem hún hefur heldur betur slett úr klaufunum eftir að hún skildi við fyrrverandi eiginmann sinn, Kevin Federline í nóvember sl.