Lögmaður, sem í kvöld fékk það hlutverk að ákveða hvar Anna Nicole Smith verður lögð til hinstu hvílu, ákvað í dag að hún skuli jarðsett á Bahamaeyjum þar sem sonur hennar var grafinn fyrir skömmu. Annar dómari, sem átti að úrskurða í málinu, komst að þeirri niðurstöðu að fjárhaldsmaður fimm mánaða gamallar dóttur Smith skyldi ákveða hvar Smith yrði grafin.
Larry Seidlin, héraðsdómari í Fort Lauderdale á Flórída, úrskurðaði fyrr í kvöld, að Richard Milstein, fjárhaldsmaður Dannielynn, dóttur Smith, skyldi ákveða hvar Smith skyldi jarðsett. Móðir Smith krafðist þess að fá að grafa dóttur sína í Texas, þar sem hún fæddist, en Howard K. Stern, sem skráður er faðir Dannielynn á fæðingarvottorði hennar, vildi að Smith yrði grafin á Bahamaeyjum.
Seidlin snökti þegar hann kvað upp úrskurð sinn og sagðist sjálfur vilja að Smith yrði grafin við hlið sonar síns á Bahamaeyjum. „Ég vil að þau verði saman," sagði hann.
Deilan um hvar Smith skyldi jarðsett er ein af mörkum, sem sprottið hafa upp í kjölfar dauða hennar. Dómari í Kalíforníu hefur m.a. það hlutverk að úrskurða hver réttur faðir Dannielynn sé en að minnsta kosti tveir karlmenn, auk Stern, segjast líklega eiga barnið.
Ekki er ljóst hvenær útför Smith verður. Réttarlæknir sagði í gær, að tíminn væri að verða naumur vegna þess að lík Smith hefði varðveist illa.