Breski leikarinn Hugh Grant er nú sagður ætla að vera viðstaddur brúðkaup fyrrum unnustu sinnar Liz Hurley í Gloucestershire þann 3. mars en áður hafði hann lýst því yfir að hann og kærasta hans Jemima Khan yrðu ekki viðstödd brúðkaupið. Var ástæðan talin sú að Jemima setti náið samband hans við Liz fyrir sig en í síðustu viku lýstu svo Hugh og Jemima því yfir að þriggja ára sambandi þeirra væri lokið.
Í kjölfar þess mun Hugh hafa þegið boð í brúðkaupsveisluna en honum mun einnig hafa verið boðið í steggjapartí brúðgumans Arun Nayar og að flytja ræðu í brúðkaupsveislunni.
„Hann mun flytja ræðu. Hún verður á gamansömum nótum en það verð engar athugasemdir eða dæmisögur úr áralöngu sambandi þeirra. Hugh og Elizabeth munu fara í gegn um það hvað má segja og hvað ekki. Elizabeth vill ekki að hinn nýi eiginmaður hennar fari hjá sér eða að honum líða á nokkurn hátt undarlega á þessum stóra degi þeirra,” segir ónafngreindur heimildarmaður breska blaðsins Daily Mail
Óstaðfestar fréttir herma að Jemima hafi slitið sambandi sínu við Hugh eftir að hún komast að því að hann hefði keypt rándýra hálsfesti handa fyrrum unnustu sinni og látið grafa í hana persónuleg skilaboð.