Leikkonunni Helen Mirren kann að verða boðið í te í Buckinghamhöll í kjölfar þess að hafa hlotið Óskarsverðlaunin fyrir túlkun sína á Elísabetu drottningu.
Mirren hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir leik sinn í The Queen, bæði Golden Globe-verðlaunin, Screen Actors Guild Award og BAFTA.
Á Óskarsverðlaunahátíðinni í gærkvöldi lét leikstjóri myndarinnar, Stephen Frears, að því liggja að hann, Mirren og handritshöfundurinn, Peter Morgan, myndu halda á fund drottningarinnar sjálfrar í Buckinghamhöll í næsta mánuði.
Talsmaður hallarinnar sagði að ýmsir kostir kæmu til greina, og fullvíst mætti telja að drottningin væri afar ánægð með glæsilegan árangur Mirren.
Talsmaðurinn vildi ekki tjá sig um það hvort Elísabet hefði séð myndina, en benti á að drottningin færi oft á kvikmyndafrumsýningar.
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, er einnig áberandi persóna í myndinni, en talsmaður hans sagði í dag að hann hefði ekki enn séð myndina, en væri himinlifandi yfir glæstum árangri Mirren.
Breska blaðið The Sun var í dag með getgátur á forsíðunni um að Mirren myndi eiga fund með drottningunni, en hafði eftir heimildamanni að það kæmi ekki til greina að drottningin myndi horfa á kvikmynd sem fjallaði um dauða Díönu prinsessu og eftirmála hans. Þeir atburðir væru drottningunni í of fersku minni.