gudni@mbl.is
ELF Films í Los Angeles, kvikmyndafyrirtæki í eigu þriggja íslenskra systra, undirritaði í gær samning við Thelmu Ásdísardóttur, Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur og Eddu útgáfu um kaup á réttindum til gerðar kvikmyndar eftir bókinni Myndin af pabba.
Þar birtist frásögn Thelmu af kynferðislegu ofbeldi sem hún og systur hennar urðu fyrir af hálfu föður síns og fleiri. Gerður Kristný skráði sögu Thelmu. Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn sem samið er um réttindi að leikinni kvikmynd eftir íslenskri bók sem ekki er skáldsaga.
„Skilaboðin eru þau að það er hægt að lifa þetta af." Thelma sagði að yrði kvikmyndin miðuð við alþjóðlegan markað væri hún á báðum áttum um hvort tengja ætti frásögn hennar við lítinn bæ á Íslandi.
Þá yrði auðvelt fyrir fólk úti í hinum stóra heimi að hugsa að svona nokkuð gerðist bara í afkimum heimsins.
„Ég veit að þetta getur gerst hvar sem er og er að gerast hvar sem er," sagði Thelma. Hún hefur boðið fram aðstoð sína við gerð kvikmyndarinnar. Thelma hefur unnið mikið við ráðgjöf í þessum málaflokki og veit t.d. hve mikilvægt er að velja rétt orð og orðfæri í umfjöllun um svo viðkvæm mál.
Helena Einarsdóttir undirritaði samninginn fyrir hönd Elf Films sem er í eigu systranna Guðrúnar Ágústu, Birnu Pálínu og Helenu Einarsdætra. Frásögn Thelmu hafði sterk áhrif á þær systur, líkt og alla aðra Íslendinga.
Ítarlega er fjallað um þetta á forsíðu Morgunblaðsins í dag og bls. 4.