Hroki og hleypidómar eftir Jane Austen er í efsta sæti á lista yfir 100 uppáhaldsbækur breskra lesenda, og þykir listinn benda til að klassískar skáldsögur séu lesendum kærari en nýrri bækur.
Harry Potter-bækurnar eru í fjórða sæti á listanum, en í öðru sætinu er Hringadróttinssaga Tolkiens.
Í þriðja sætinu er Jane Eyre eftir Charlotte Bronte, og Wuthering Heights, eftir Emily systur hennar er númer sjö og 1984 eftir Orwell í því áttunda.
Það voru alls um tvö þúsund lesendur sem völdu á listann í könnun sem gerð var á Netinu.
Bæði Biblían og verk Shakespears komust á listann, en nýjar metsölubækur eins og Da Vinci-lykillinn og Flugdrekahlauparinn eru hvergi nærri toppi listans, þótt þær komist á hann.
Hroki og hleypidómar komu fyrst út 1813.