John Travolta segir að Anna Nicole Smith kynni að vera enn á lífi ef hún hefði skráð sig í umdeilda fíkniefna- og afeitrunarmeðferð hjá Vísindakirkjunni.
Meðferðin kallast Narconon, en hún hefur sætt mikill gagnrýni fyrir óhefðbundnar aðferðir sem beitt er við hana, en hún er í samræmi við hugmyndir stofnanda Vísindakirkjunnar, L.Ron Hubbard.
„Við hefðum getað hjálpað henni með Narconon en fengum ekki tækifæri til þess. Ég vildi að við hefðum fengið það,“ sagði Travolta.
Meðferðin er m.a. fólgin í því að taka stóra skammta af vítamínum, hlaupa mikið og sitja lengi í gufubaði til að hreinsa fíkniefni og „geislun“ úr líkamanum.
Vísindakirkjusinnar segja að Narconon skili árangri í 85% tilvika, en gagnrýnendur segja að meðferðinni hafi í raun verið beitt til að gera fíkla að meðlimum í söfnuðinum.