Írski leikarinn Pierce Brosnan verður meðal leikara í kvikmynd, sem gerð verður eftir söngleiknum Mamma Mia! en söngleikurinn byggir á lögum ABBA-flokksins sænska. Bandaríska leikkonan Meryl Streep mun einnig leika í myndinni, að sögn blaðsins Daily Variety.
Í söngleiknum er sögð saga ungrar konu, sem leitar föður síns. Í því skyni boðar hún hóp karlmanna á fund á grískri eyju, og leikur Brosnan einn þeirra manna. Blaðið hefur eftir leikaranum, að hann hafi verið fljótur að grípa tækifærið að fá að leika á móti Streep en þau munu m.a. syngja tvísöng í myndinni.
„Ég sá sýninguna með fjölskyldu minni í Lundúnum og fannst hún svo glaðleg og full af fjöri og vísa svo sterkt til áttunda áratugarins. Það er ekki ónýtt að fá að eyða tíma með Meryl á grískri eyju og syngja ABBA-lög," segir Brosnan.
Söngleikurinn var frumsýndur í Lundúnum árið 1999 og er einn mest sótti söngleikur sögunnar.