Þeim mönnum, sem eiga milljarð dala eða meir, fjölgaði á síðasta ári og eru samtals 946 samkvæmt árlegri samantekt bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes, hefur fjölgað um 153 milli ára. Eignir þessa fólks jukust um 35% og námu 3,5 billjónum dala. Síðasta ár var fjárfestum yfirleitt hagstætt en verð á hlutabréfum, fasteignum og hrávörum hækkaði almennt í verði.
Bandarísku kaupsýslumennirnir Bill Gates, stjórnarformaður Microsoft, og Warren Buffett, stjórnarformaður Berkshire Hathaway Inc., eru að vanda efstir á listanum. Eignir Gates jukust um 6 milljarða dala á síðasta ári og nema nú 56 milljörðum að mati Forbes. Eignir Buffetts jukust um 10 milljarða og nema 52 milljörðum. Í þriðja sæti er eins og í fyrra mexíkóski kaupsýslumaðurinn Carlos Slim Helú, en eignir hans, sem jukust um 19 milljarða dala, nema 49 milljörðum dala. Ingvar Kamprad, stofnandi IKEA, og fjölskylda hans, eru í 4. sæti með 33 milljarða dala eignir. Rússinn Roman Abramovítsj, eigandi enska knattspyrnuliðsins Chelsea, er í 16. sæti á listanum með 18,7 milljarða dala eignir. Svíinn Stefan Persson, forsjóri fatakeðjunnar Hennes & Mauritz, er í 17. sæti með 18,4 milljarða dala eignir.
Aðeins fimm Bandaríkjamenn eru á listanum yfir 20 ríkustu menn heims en þeir eiga samtals 44% af eignum allra á lista Forbes. Howard Schultz, stjórnarformaður kaffihúsakeðjunnar Starbucks, og Michael Eisner, fyrrum stjórnarformaður kvikmyndaversins Disney, komust á listann í fyrsta skipti en fyrir ofan þá eru nýliðarnir Mike Lazaridis og Jim Balsillie, frá Kanada, stjórnendur Research In Motion Ltd., sem framleiðir Blackberry síma.
Kínverjar eiga nokkra fulltrúa í efstu sætunum, þar á meðal kaupsýslukonuna Li Wei, sem stofnaði matvælafyrirtækið Synear Food Holding. Fyrirtæki hennar framleiðir tilbúna frysta rétti og hefur m.a. gert samning um að sjá keppendum og starfsmönnum á ólympíuleikunum í Peking á næsta ári fyrir mat.
Meðal þeirra, sem féllu af listanum yfir 20 ríkustu menn heims voru erfingjar Wal-Mart verslunarkeðjunnar en hlutabréf fyrirtækisins lækkuðu töluvert í verði á síðasta ári. Sömu örlög hlaut Michael Dell, stofnandi tölvuframleiðandans Dell Inc.