Læknirinn Joshua Perper, sem fer með krufningu Önnu Nicole Smith, hefur tilkynnt að hann þurfi eina til tvær vikur til viðbótar áður en hann kveður upp úrskurð um dánarorsök. Segir Perper að ný sönnunargögn hafi komið fram sem krefjist frekari rannsóknar, og vill hann m.a. skoða tölvu sem var í eigu Nicole Smith áður en úrskurðurinn verður kveðinn upp.
Perper segir að bíða verði um tíma þar til umrædd gögn verði fáanleg og að mögulegt sé að þau muni breyta skoðun hans á aðstæðum við andlát fyrirsætunnar.
Perper hefur ekkert gefið upp um það hvaða sönnunargögn er að ræða eða hvernig þau geti haft áhrif á úrskurðinn, en nefndi sem dæmi að dánarorsök manneskju sem félli niður tröppur ákvarðaðist af aðstæðum, um sjálfsvíg gæti verið að ræða ef viðkomandi hefði stokkið, morð ef manneskjunni hefði verið hrint, eða slys ef sá látni hefði hrasað eða fengi hjartaáfall.
Anna Nicole Smith var úrskurðuð látin þann 8. febrúar sl. eftir að hún fannst meðvitundarlaus á hótelherbergi í bænum Hollywood á Flórída. Ekkert hefur komið fram í rannsókninni sem bendir til þess að hún hafi verið myrt.