Breska leikkonan og fyrirsætan Elizabeth Hurley og eiginmaður hennar Arun Nayar lentu í átökum við fjölmiðlafólk er þau hugðust yfirgefa bæinn þar sem brúðkaupsveislu þeirra lauk en veislan hefur staðið yfir í viku. Að minnsta kosti tíu blaðamenn eru sárir eftir átökin en mikil öryggisgæsla hefur verið allan tímann sem veislan hefur staðið yfir enda gríðarlegur ágangur frá fjölmiðlum vegna brúðkaupsins.
Brúðhjónin sem voru gefin saman í borgaralegri athöfn í síðustu viku í kastala fyrir utan London hafa síðan haldið upp á brúðkaupið vikulangt með veislum í Mumbai á Indlandi og í gær létu þau gefa sig saman að hætti hindúa.
Segja fjölmiðlamenn sem voru á staðnum að lögregla og öryggisgæsla hafi beitt sér af hörku gegn fjölmiðlafólkinu og því hafi mikill æsingur myndast meðal nærstaddra en brúðhjónin seldu breska tímaritinu Hello réttinn á að birta myndir frá veislunni og brúðkaupinu.
Brúðhjónin höfðu ætlað sér að heilsa upp á fjölmiðla og íbúa bæjarins þegar veislunni lauk en vegna látanna varð heldur minna úr því en til stóð. Þau hafa hins vegar beðið fjölmiðla afsökunar á því harðræði sem þeir urðu fyrir af hálfu öryggisvarða.