Forsætisráðherra Ísraels hélt mikilvægan fund með forseta Palestínu í gær en það er fátt sem vekur meiri athygli meðal Ísraela í dag en leikarinn og nýbakaði Íslandsvinurinn Leonardo DiCaprio.
DiCaprio flaug til Ísraels í gær ásamt kærustu sinni, ísraelsku fyrirsætunni Bar Raphaeli, og ekki leið á löngu þar til hjörð ljósmyndara var farin að sitja fyrir leikaranum. Parið hefur verið saman í um eitt ár og ísraelskir fjölmiðlar hafa keppst við að segja nýjustu fréttir af skötuhjúunum, enda Ísraelar stoltir af því að ísraelsk stúlka hafi náð að klófesta einn vinsælasta leikarann í Hollywood.
Svo virðist sem að DiCaprio og Raphaeli hafi vonast til þess að þau gætu komist inn í landið óséð, en þau komu með næturflugi frá Frankfurt í Þýskalandi. Það gekk hinsvegar ekki eftir þar sem það vildi til að í sömu vél var hópur ísraelskra blaðamanna, sérhæfðra í skemmtikraftafréttum.
Þegar skötuhjúin lentu var stefnan tekin heimili fjölskyldu Raphaelis, sem er í úthverfi Tel Aviv, og ekki leið á löngu þar til tugir blaðaljósmyndara voru farnir að veita þeim eftirför. Guy Pines, stjórnandi vinsælasta ísraelska skemmtiþáttarins í sjónvarpi, hafði t.d. tekið tvær þyrlur á leigu til þess að fylgjast með öllu úr lofti. Það er ekki óalgengt að ákafir ljósmyndarar geri slíkt úti í heimi en Pines segir að þetta sé í fyrsta sinn sem slíkt sé gert í Ísrael.
Raphaeli og DiCaprio hafa lokað sig inni í húsinu og það eina sem ljósmyndararnir náðu í morgun voru óskýrar myndir því þegar verið var að aka parinu á heimili foreldra Raphaelis.