Gengið hefur verið frá skilnaði Roman Abramovich, auðugasta manns Rússlands og eiginkonu hans Irinu Malandina í Rússlandi. Talsmaður Abramovich segir skilnaðinn hafa farið friðsamlega fram og að hann muni ekki hafa áhrif á fjárfestingar Abramovich. Þetta kemur fram áfréttavef Jyllands-Posten.
Abramovich er eigandi breska knattspyrnuliðsins Chelsea og héraðsstjóri í Tjukotka í Síberíu. Hann ver þó megninu af tíma sínum í London. Talið er að rekja megi skilnaðinn til sambands hans við hina 23 ára Darju Zhukova en í október á síðasta ári sagði talsmaður Abramovich ekkert hæft í sögusögnum um að skilnaður stæði fyrir dyrum.
Fyrir skilnaðinn var Abramovich 16. ríkasti maður heims samkvæmt lista Forbes tímaritsins en eignir hans eru metnar á 18,7 milljarða Bandaríkjadollara. Um helmingur eigna þeirra mun hins vegar falla í hlut Malandina en þau hafa verið gift frá árinu 1991 og eiga fimm börn.