Kvikmyndaverið Universal mun fara harla óvenjulega leið í markaðssetningu á nýrri kvikmynd, The Peaceful Warrior, og ætlar að gefa mikinn fjölda miða á hana fyrir sjálfa frumsýningarhelgina.
Gefnir verða miðar fyrir sem svarar allt að 15 milljónum dollara, og geta áhugasamir fengið allt að tíu miða endurgjaldslaust. Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 30. mars.
Markaðsstjóri Universal, Adam Fogelson, segir myndina, sem er gerð eftir skáldsögu Dan Millman, Way of the Peaceful Warrior, ekki henta til hefðbundinnar markaðssetningar.
„Við vildum gefa viðskiptavinum færi á að kíkja á myndina og ákváðum að í staðinn fyrir að setja peninga í hefðbundna markaðssetningu myndum við í staðinn kaupa fyrir þá miða og afhenda bíógestum. Þessu tilboði fylgja í raun og veru engin skilyrði,“ sagði Fogelson.
Vonast væri til að myndin hlyti umtal sem duga myndi til að vekja almennan áhuga á henni. Reyndar var hún frumsýnd í fyrra, en aðeins í fáeinum kvikmyndahúsum. Á sunnudaginn verður hægt að panta ókeypis miða á hana á netinu, en miðagjöfunum lýkur 1. apríl.