Heather Mills liggur ekki á liði sínu þó hún standi í ströngu skilnaðarmáli við Sir Paul McCartney og berst nú fyrir því að gyltur verði ekki hafðar í svo þröngum búrum eftir að þær eiga grislinga sína að þær geti ekki lagst niður.
Gyltur í sumum svínabúum á Bretlandi eru hafðar í slíkum búrum í fimm vikur eftir got til að grislingarnir geti sogið þær þegar þeim hentar án þess að eiga á hættu að gyltan velti sér á þá og kremji.
Samtök gyltuvina sem Mills berst nú með segja að með þessari aðferð deyi í raun fleiri grislingar en þegar gylta og grislingar fái nóg pláss til að athafna sig.
Mills mun leiða mótmælagöngu í London seinna í dag, gengið verður til Downing-strætis númer 10 þar sem undirskriftarlisti verður afhentur og síðan verður farið að verslun Marks og Spencer þar sem þessari grimmilegu aðferð við svínarækt er mótmælt.
Í viðtali við Sky fréttastofuna sagði Mills að hún reyndi að einbeita sér að því sem er mikilvægt í þessu lífi.
Mills fór með kvikmyndatökulið á laun í svínabú í Glastonbury í Somerset og myndaði gyltur í þröngum búrum.
Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að gefa sig út fyrir að vera dýravin en ganga eigi að síður í dýrum pelsum. Hún hefur svarað því til að myndir sem hafa birst af henni skrýddri pelsum hafi verið teknar áður en hún fræddist um það dýraplagerí sem viðgengst.