Nýi kærastinn hennar Britneyjar Spears, gítarleikarinn Jason Filyaw, segist vera ástfanginn. Hann vill ekki staðfesta að þau Britney séu í föstu sambandi, en segir þau orðin „mjög náin“.
Jason tjáði slúðurveitunni TMZ.com að hann elskaði Britneyju og styðji hana „hundrað prósent“.
„Við höfum orðið mjög náin síðan við urðum vinir,“ er haft eftir Filyaw. Hann segist ennfremur hafa hjálpað Britney með „andlega djúpa“ þætti áfengismeðferðarinnar.
Filyaw er 33 ára. Hann segist hafa þekkt Britney áður en hún fór í meðferð á Promises-stofnuninni á Malibu. Þau hefðu tekið upp tónlist saman fyrir nokkrum árum í New York.
Aðrar fregnir herma að Britney hafi sýnt stórstjörnustæla í meðferðinni og verið mjög frek. Hún hagi sér eins og hún sé 12 ára og fái skapofsaköst ef hún fái ekki það sem hún vill.
„Hún neitar að taka til eftir sig og spurði jafnvel hvort hún mætti ráða þjónustustúlku! Hún vill fá sérstakan mat og hvers kyns sérmeðferð, og kemur ekki vel fram við neinn,“ hafði tímaritið Star eftir heimildamanni. „Britney á við mjög alvarlegan hegðunarvanda að stríða.“
Þá fullyrðir tímaritið að Britney hvolfi í sig allt að 24 dósum af kóka-kóla á dag.