Bandaríska leikkonan Angelina Jolie þykir miður að ættleiðing hennar á víetnömskum dreng hafi orðið til þess að fjölmiðlar um allan heim séu farnir að sýna honum áhuga. Jolie segist hinsvegar ætla að sjá til þess að hann muni halda tengslum við uppruna sinn og menningu.
Jolie sótti hinn þriggja ára gamla Pham Quang Sang á munaðarleysingjahæli í Ho Chi Minh og hún sagði að hún vilji breyta nafni hans í Pax Thien, sem tengir saman latneska orðið fyrir frið og víetnamska orðið fyrir himnaríki.
„Pax er aðeins þriggja ára gamall, og hann hefur verið allri sinni barnæsku á munaðarleysingjahæli,“ sagði hin 31s árs gamla Jolie við fjölmiðla í Víetnam.
Jolie segir jafnframt að hún hafi áhyggjur af því að ljósmyndarar muni elta nýja soninn hennar. „Ég vil biðjast afsökunar á því að draga þetta inn í líf Pax,“ segir hún. Fjölmiðlar eltu Jolie í gær þegar hún sótti drenginn á hælið og þegar hún fór með hann í dómsmálaráðuneytið þar sem lítil ættleiðingarathöfn fór fram.
Jolie sagði að Pax tali enga ensku og því „verðum við að læra að aðlagast hvort öðru og læra á tungumál hvors annars.“