Breski tónlistarmaðurinn Mika á vinsælasta lagið á Íslandi núna samkvæmt nýjum lista sem birtur er í Morgunblaðinu í dag. Listinn, sem framvegis verður birtur á fimmtudögum, er unninn af Félagi hljómplötuframleiðenda.
„Við fáum 40 mest spiluðu lögin frá fjórum útvarpsstöðvum, Rás 2, Bylgjunni, FM957 og X-inu og svo tökum við söluna á tónlist.is líka inn í þetta. Við förum eftir hlustun á þessar stöðvar og hækkum vægi þeirra samkvæmt hlustuninni. Rás 2 og Bylgjan eru með mesta vægið, næst er FM og svo X-ið og tónlist.is," segir Jónatan Garðarsson, framkvæmdastjóri Félags hljómplötuframleiðenda.
„Við erum sannfærðir um að þetta sé eins nálægt því og við komumst að vera með sannfærandi lista. Það hefur verið talað um að framkvæma þetta í mörg ár en aldrei verið hægt að gera þetta almennilega fyrr en nú," segir Jónatan, og bætir við að segja megi að um marktækasta lagalista á Íslandi sé að ræða.