„Þetta er náttúrlega alveg frábært. Ég bjóst engan veginn við þessu, vissi ekki einu sinni að við kæmum til álita," segir tónlistarmaðurinn Máni Svavarsson sem er tilnefndur til Emmy-verðlauna.
Það er fyrir tónlistina í þáttunum um Latabæ sem Mána hlotnast heiðurinn en tilnefningin er í flokki tónlistarstjórnunar og tónverka fyrir sjónvarpsefni sem sýnt er að degi til.
Mun þetta vera í fyrsta skipti sem íslenskur tónlistarmaður kemur til álita í þessum flokki.
„Ég veit ekki alveg hvort maður gerir sér grein fyrir þessu. Maður er búinn að vera lokaður inni í stúdíói síðan 2003, síðan við byrjuðum á þessu, þannig að maður hefur eiginlega ekki áttað sig á gengi Latabæjar," heldur Máni áfram af hógværð.
Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Kodak-leikhúsinu í Hollywood 15. júní næstkomandi en þar keppir Magnús Scheving einnig til verðlauna fyrir leikstjórn á barnaefni.
Bandaríska sjónvarpsakademían kynnti tilnefningarnar í fyrradag.