Margir notast eflaust við vefritið Wikipedia til efnisöflunar og hvers kyns glöggvunar á hinum og þessum mönnum og málefnum. Bandaríski leikarinn og skemmtikrafturinn Sinbad myndi samt trúlega ekki gefa mikið fyrir trúverðugleika Wikipediu eftir þær raunir sem hann lenti í í síðustu viku.
Sem kunnugt er er öllum frjálst að rita í vefritið sem og að leiðrétta ef vitlaust er farið með einhverjar staðreyndir. Staðreyndavillurnar eru misalvarlegar en áðurnefndum Sinbad var hreint ekki skemmt þegar upplýst var á færslunni um hann á vefritinu að hann væri látinn.
Að hans sögn fór í kjölfarið að rigna yfir hann tölvupóstum og símhringingum frá vinum og ættingjum sem vildu kanna hvort hann væri ekki örugglega í tölu lifenda.
Síðan um Sinbad á Wikipedia er ekki lengur á vefnum og er sögð vera í vinnslu.
Wikipedia var stofnað árið 2001. Þar er að finna um 1,6 milljónir greina um efni úr öllum áttum sem er ritstýrt af notendum sjálfum.