Baggalútur hefur sent frá sér nýtt lag: Ísland, ég elska þig (gullnir steypast fossar), sem er innblásinn ættjarðarsöngur ætlaður íslenskri þjóð á ögurstund, að því er kemur fram á heimasíðu sveitarinnar.
Segir Baggalútur, að segja megi, að verkið sé eins kyns óformlegt umhverfismat Baggalúts og ætlað að endurspegla gengdarlausa ást og umhyggju fyrir jafnt landi, tungu og þjóð.
„Karlakórinn Gamlir Fóstbræður lagði til þá karlmannlegu undiröldu sem nauðsynleg er lagi sem þessu og laglínan er sungin tifandi tenórröddu, sem ekki er heiglum hent að fylgja - enda á það ekki að vera á færi nema fagmanna að túlka góða ættjarðarsöngva. Þá leggja valinkunnir og þjóðernissinnaðir listamenn hönd á plóg, innlendir sem erlendir," segir einnig á heimasíðunni.