Borgarstjórinn í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, og forseti Hinsegin daga í Reykjavík, Þorvaldur Kristinsson, undirrituðu í ráðhúsinu í dag nýjan þriggja ára samstarfssamning. Í samningnum felst að Reykjavíkurborg styrkir Hinsegin daga um fjórar milljónir króna á ári næstu þrjú árin.
Hinsegin dagar taka að sér í samvinnu við Höfuðborgarstofu, sem er framkvæmdaraðili borgarinnar á samningnum, að halda útihátíð í Reykjavík ár hvert sem er opin öllum borgarbúum og leggur sig fram um að kynna Reykjavík sem borg jafnréttis og menningar jafnt innanlands sem utan, að því er segir í tilkynningu.
„Reykjavíkurborg hefur frá upphafi verið aðalbakhjarl Hinsegin daga. Allt frá árinu 2000 hafa stjórnvöld í borginni sýnt hátíðinni mikinn skilning og hvatt forráðafólk hátíðarinnar áfram. Fyrsti langtíma samningur milli Hinsegin daga og borgarinnar var gerður til þriggja ára árið 2004 og hljóðaði hann upp á 1,6 milljónir króna á ári. Hækkun framlags Reykjavíkurborgar nú er því vegleg, eða um 150 prósent og sýnir staðfestan stuðning og þá trú ráðamanna í borginni að Hinsegin dagar séu mikilvægir í íslensku menningarlífi," samkvæmt fréttatilkynningu.
Hinsegin dagar fara fram dagana 9.–12. ágúst í ár. Að venju koma fjölmargir innlendir og erlendir listamenn fram á hátíðinni, en í ár mun tónlistarmaðurinn Jimmy Somerville vera á meðal þátttakenda.