Það þykir nú varla stórfrétt lengur þegar Yoko Ono bregður sér hingað til lands en þó dvaldi Ono á klakanum um síðustu helgi í þrjár nætur.
Það fór ekki mikið fyrir listakonunni sem var hér í þeim tilgangi að huga að listarverki sem mun rísa í Viðey en þar hyggst Ono reka niður friðarsúluna IMAGINE PEACE TOWER í minningu eiginmanns síns, John Lennon. Vinnan við súluna gengur vel eftir því sem fregnir herma og allt útlit fyrir að verkið verði hið myndarlegasta fullklárað.
Hugmyndina um súluna fékk Ono fyrir um 40 árum en súlan mun í raun vera bjartur ljósgeisli sem teygir sig upp í himinhvolfið.
Orkuveita Reykjavíkur greiðir kostnað vegna friðarsúlunnar sem mun nema um 15 milljónum króna.