Fjalakötturinn sýnir um þessa helgi í Tjarnarbíói þrjár kvikmyndir japanska leikstjórans Tatsumi Kumashiro, en hann er af mörgum talinn mikilvægasti leikstjóri Japans á áttunda áratugnum. Á sjöunda og áttunda áratugnum fór aðsókn að kvikmyndahúsum dvínandi í Japan og framleiðendur brugðu á það ráð að lokka fólk í bíó með opinskáum, kynferðislegum og ljósbláum kvikmyndum.
Reglur um ritskoðun voru þá sterkar og leikstjórar þurftu að vinna sig í kringum reglurnar. Úr urðu ýmsar frumlegar leiðir til að sýna kynlíf á filmu og alls kyns sérkennilegar myndir sem eru ekki endilega erótískar í grunninn, þótt frásögnin sveigi inn á þær brautir til að þóknast framleiðendunum, að því er segir í tilkynningu frá Fjalakettinum.
Þetta þykir merkilegt tímabil í japanskri kvikmyndasögu sem sérstök aðdáendahjörð hefur myndast um. Myndirnar eru bannaðar börnum, eins og gefur að skilja af ofangreindri lýsingu.