Bandarísku rappararnir Snoop Dogg og P Diddy, sem hafa að undanförnu verið á tónleikaferð um Evrópu, hafa aflýst fyrirhuguðum tónleikum á Bretlandseyjum vegna þess að Snoop Dogg fékk ekki vegabréfsáritun inn í landið.
Snoop Dogg, sem heitir réttu nafni Calvin Broadus, gagnrýndi bresk stjórnvöld harðlega í viðtali við MTV sjónvarpsstöðina í Amsterdam og sagði að Bretar hafi vitað fyrir 6-7 vikum að hann væri á leið til landsins og hefðu getað birt honum ákvörðunina þá.
„Ég get ekki breytt fortíðinni nú; ég var í glæpaflokki og seldi fíkniefni, en ég hef snúið við blaðinu," sagði hann.
Breska utanríkisráðuneytið vildi ekki tjá sig um málið við BBC.
Fyrstu Bretlandstónleikar þeirra félaganna áttu að vera í Lundúnum í kvöld en einnig voru fyrirhugaðir tónleikar í Cardiff, Manchester, Glasgow og Nottingham.