Bush brá sér í hlutverk uppistandara

Nancy Pelosi á orðastað við George W. Bush í veislu …
Nancy Pelosi á orðastað við George W. Bush í veislu fréttamanna í gærkvöldi. Reuters

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, brá sér í hlutverk skemmtikrafts í árlegum kvöldverði samtaka fréttamanna í Washington í gærkvöldi. Gerði hann m.a. grín að minnkandi vinsældum sínum og framtíðarhorfum eftir að hann lætur af embætti forseta.

„Fyrir ári naut ég um 30% stuðnings, fulltrúi minn í embætti hæstaréttardómara hafði dregið sig í hlé og varaforsetinn minn hafði nýlega skotið einhvern. Ó, þetta voru hinir gömlu góðu dagar," sagði Bush.

Löng hefð er fyrir því að Bandaríkjaforsetar eða eiginkonur þeirra haldi ræðu á árshátíð fréttamannasambandsins og geri grín að sér og öðrum. Sagt er að fyrsti forsetinn sem þetta gerði hafi verið Calvin Coolidge árið 1924.

Bush hóf ræðu sína á því að þakka fréttamannasambandinu fyrir veitingarnar og Webb öldungadeildarþingmanni fyrir að veita öryggisgæslu. En háttsettur aðstoðarmaður Jims Webbs, öldungadeildarþingmanns demókrata frá Virginíu, reyndi nýlega að fara með skammbyssu inn í bandaríska þinghúsið.

Þá vakti Bush athygli á því, að Dick Cheney, varaforseti, væri ekki í veislunni. „Þetta hafa verið erfiðar vikur hjá onum og hann var raunar dálítið sár. Hann sagðist ætla að fara í frí til Afganistans þar sem fólk skilur hann," sagði Bush og vísaði þar til nýlegrar heimsóknar varaforsetans til Afganistans þar sem reynt var að ráða hann af dögum.

Bush fjallaði einnig um mál átta brottrekinna saksóknara sem mikið er í umræðunni þessa dagana. „Ég verð að viðurkenna að við gerðum mistök þegar við létum þessa saksóknara fara," sagði Bush. „Maður veit að maður hefur klúðrað málum þegar almenningur fær samúð með lögmönnum."

Bestu viðtökurnar fékk Bush þó þegar hann sagðist áforma að skrifa ævisögu sína eftir að hann færi úr embætti og sagði að Bill Clinton hefði skrifað 10 þúsund blaðsíðna langa grafhvelfingu. „Ég er að hugsa um að gera eitthvað verulega skemmtilegt og hugmyndaríkt," sagði hann. „Kannski flettibók." Hann bað áheyrendur að íhuga mögulega titla, svo sem Þriðjudagur með Cheney, eða Hver breytti forsetaembættinu mínu?

Bush gerði einnig gys að helstu forvígismönnum Demókrataflokksins. Hann kinkaði kolli til Nancy Pelosi, þingflokksformanns demókrata í fulltrúadeildinni, og sagðist hafa velt því fyrir sér hvernig þeim kæmi saman. „Sumir segja að hún sé stjórnsöm, hún hafi ákveðnar skoðanir og ekki megi reita hana til reiði. En mér kemur svo sem ágætlega saman við mömmu!"

Þá benti hann á, að Barack Obama, forsetaframbjóðandi, hefði ákveðið að mæta ekki í veisluna. „Það eru ekki nógu margir blaðamenn hér!"

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir