Ricky Gervais fékk yfir sig blótsyrðagusu frá breska sjónvarpsþáttastjórnandanum Richard Madeley í beinni útsendingu í gær. Gervais tók við barnabókaverðlaunum í sjónvarpsþætti Madeleys fyrir bók sína Flanimals Of The Deep með gervihnattasambandi og gerði grín að símakosningarhneyksli sem Madeley tengist.
Madeley brást við með því að segja grínistanum með óvönduðu orðbragði að hann væri vanþakklátur ódámur og vandaði honum ekki kveðjuna.
Á fréttavef Yahoo segir að Gervais hafi hlotið verðlaunin með símakosningu og þegar hann þakkaði fyrir verðlaunin spurði hann Madeley hvort ekki væri búið að segja fólki að það gæti hætt að hringja inn og vitnaði þar í hneykslismál sem komst upp fyrr í vetur þar sem Madeley hafði hvatt fólk til að halda áfram að hringja inn þrátt fyrir að úrslit þeirrar kosningar væru kunn.
Richard Madeley og eiginkona hans Judy Finnigan hafa í áratugi stýrt sjónvarpsþáttum í Bretlandi, þekktust eru þau fyrir þættina Richard and Judy.