París Hilton kann að fara beina leið í steininn eftir að hún varð uppvís að skilorðsrofi með því að aka bifreið þrátt fyrir að hafa verið svipt ökuréttindum tímabundið. Saksóknari í Los Angeles greindi frá því í gær að París gæti átt yfir höfði sér allt að 90 daga fangelsisvist.
Lögreglan stöðvaði Parísi á Sunset Boulevard í febrúarlok þar sem hún ók án þess að hafa ljósin kveikt. Í ljós kom að hún var þar að auki svipt ökuréttindum, en hún hélt því fram að hún hefði ekki vitað hvort sviptingin væri enn í gildi.
En talsmaður saksóknara tjáði tímaritinu People að embættið hefði nægar sannanir fyrir því að París hefði vitað að sviptingin var í gildi, en samt sest undir stýri.
París var svipt ökuréttindum eftir að hún var stöðvuð fyrir ölvun við akstur í janúar, og hlaut þá 36 mánaða skilorðsbundinn dóm.