Til stendur að tónlist Bítlanna verði senn seld á netinu, en enn hefur ekki verið ákveðið nákvæmlega hvenær af því verður. Eric Nicoli, forstjóri útgáfufyrirtækisins EMI Group, tilkynnti um þetta í samtali við fjölmiðla í dag að loknum fundi þar sem samstarf EMI og Apple var kynnt. Vefsíða NME segir frá þessu.
Á blaðamannafundi í dag kynntu hugbúnaðar- og tækjaframleiðandinn Apple og útgáfurisinn EMI sölu á tónlist án afritunarvarna á netinu. Athygli vakti að ekki var minnst á Bítlana á fundinum, en áttu margir von á að tilkynnt yrði um að tónlist fjórmenninganna frá Liverpool yrði seld í netverslun Apple, iTunes.
Eftir fundinn staðfesti Eric Nicoli þó að verið væri að vinna að því að ganga frá samningum og að tónlist Bítlanna verði senn seld á stafrænu sniði. Apple samdi fyrir skömmu við Apple Corp. útgáfufyrirtæki Bítlanna vegna nafns fyrirtækisins, en samningur sem fyrirtækin gerðu á níunda áratugnum kvað á um að tölvuframleiðandinn Apple hefði einungis rétt á að nota merkið til að selja tölvur og hugbúnað, en ekki tónlist.